Viðfangsefni fyrirtækisins eru fjölbreytt og kalla eftir opnum samskiptum við eiganda, viðskiptavini og hagsmunaaðila um land allt.
Á árinu stóð Landsvirkjun meðal annars fyrir tveimur opnum fundum um loftslagsmál þar sem starfsfólk fyrirtækisins og sérfræðingar héldu erindi. Fundirnir voru fjölsóttir og á þeim voru flutt mörg áhugaverð erindi um loftslagsmál, áhrif hlýnunar jarðar og loftslagsbreytinga á Ísland og þær aðgerðir sem nauðsynlegt er að grípa til. Upptökur af öllum erindum á báðum fundum má sjá hér fyrir neðan.
Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga – tími til aðgerða
Yfir 150 manns sóttu fundinn sem haldinn var í Hörpu. Umfjöllunarefni fundarins var hnattrænar loftslagsbreytingar og hvernig fyrirtæki geta lagt sitt af mörkum til að vinna gegn áhrifum þeirra. Framsögumenn voru sammála um að ábyrgð fyrirtækja og stjórnvalda um heim allan væri mikil, ekki síst í ljósi þess að hlýnun jarðar hefur aldrei verið meiri.
Hver er ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum?
Fundurinn var haldinn í Gamla bíói í marsmánuði og var afar vel sóttur. Á honum tók fjöldi sérfræðinga til máls, bæði innan Landsvirkjunar sem utan, um það hvernig fyrirtæki geta unnið gegn losun gróðurhúsalofttegunda og gegn loftslagsbreytingum.
Ábyrgð fyrirtækja í loftslagsmálum
Umhverfisvöktun
Landsvirkjun rekur tvær jarðvarmastöðvar á Norðausturlandi í Bjarnarflagi og Kröflu. Framkvæmdir við þá þriðju, Þeistareykjastöð, hófust í maí 2015 og er gert ráð fyrir að 90 MW virkjun í tveimur áföngum verði fyrsta skrefið í uppbyggingu sjálfbærrar jarðvarmavinnslu á svæðinu.
Umhverfisvöktun við Bjarnarflag og Kröflu hefur verið stunduð um árabil en þar er m.a. fylgst með breytingum á lífríki, vatns- og loftgæðum og hljóðvist. Áhrif orkuvinnslu á svæðinu eru vel kortlögð og stöðugt er unnið að mótvægisaðgerðum þar sem þess er þörf. Samstarfssamningar eru við Íslenskar orkurannsóknir, Náttúrustofu Norðausturlands og fleiri aðila sem koma reglulega á svæðin til að fylgjast með framvindu vöktunarinnar. Niðurstöður eru birtar árlega í umhverfisskýrslu Landsvirkjunar en sérfræðiskýrslur eru einnig vistaðar á vef fyrirtækisis og á www.gegnir.is.
Reglubundin vöktun umhverfisþátta hófst á Þeistareykjum áður en framkvæmdir hófust. Þess vegna er grunnástand umhverfis á svæðinu vel þekkt og verða sömu umhverfisþættir vaktaðir áfram þegar stöðin er komin í rekstur. Þannig mun Landsvirkjun fylgjast náið með áhrifum jarðvarmanýtingar á umhverfið og bregðast við með frekari mótvægisaðgerðum ef áhrifin reynast neikvæð.
Umhverfisvöktun jarðhitasvæða
Búrfellslundur
Mat á umhverfisáhrifum fyrir vindmyllulund á Hafinu ofan við Búrfell (Búrfellslund) var unnið á árinu. Framsetning matsins var á rafrænu formi sem er hluti af nýrri samskiptaleið fyrirtækisins. Með breyttri framsetningu vill Landsvirkjun fyrst og fremst auðvelda hagsmunaaðilum að kynna sér verkefni á undirbúningsstigi, á aðgengilegan og sjónrænan hátt. Það er von fyrirtækisins að það auðveldi fólki að koma með ábendingar og fyrirspurnir um verkefnin snemma í ferlinu sem geti leitt til enn betri endanlegrar útfærslu.
Vindorka er nýr orkukostur á Íslandi og vinna við mat á umhverfsáhrifum hennar var þar af leiðandi það fyrsta sinnar tegundar hér á landi.
Rafræn framsetning við mat á umhverfisáhrifum gerði mögulegt að kynna áhrif vindlundarins á myndrænni hátt en áður hefur verið gert við mat á umhverfisáhrifum, til dæmis með myndböndum, hreyfimyndum og gagnvirkum kortum.

Vefsíðan fór í loftið í október 2015. Viðbrögð við þessari nýju framsetningu voru afar góð og áhugi almennings mikill. Þá var vefurinn tilnefndur til íslensku vefverðlaunanna (SVEF) í flokknum Opinberir vefir.
Athugasemdir í umsögnum voru aðallega um víðtæk sjónræn áhrif á nálægum ferðamannastöðum. Til þess að koma til móts við þær athugasemdir var því kannað hvort mögulegt væri að afmarka svæði fyrir Búrfellslund með öðrum hætti. Niðurstaða þeirrar vinnu hefur nú verið kynnt og lögð fram í matsskýrslu sem hægt er að skoða hér.