Segment

Í rúma fjóra áratugi hefur Landsvirkjun staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna.

Section #
Segment

Tilgangur landgræðslunnar og skógræktarinnar var á sínum tíma að endurheimta landgæði, draga úr raski á gróðurlendum, stöðva gróðureyðingu og jarðvegsrof.

Segment

Árið 2015 voru 97.370 plöntur gróðursettar í nágrenni aflstöðva Landsvirkjunar.

Segment

Frá árinu 2011 hefur Landsvirkjun jafnframt unnið að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins til þessa að vega upp á móti losun vegna starfseminnar. Með kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi er unnt að draga verulega úr styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu þar sem gróðurinn og lífræn efni í jarðveginum binda kolefni, m.a. fyrir tilstuðlan ljóstillífunar.

Svæði þessi eru samanlagt um 1.500 hektarar og áætluð kolefnisbinding þeirra til framtíðar um 9.000 tonn af koldíoxíð á ári.

Skógræktarverkefnum á um 54 ha á jörðinni Laxaborg í Dölum og Belgsá í Fnjóskadal lauk árið 2015 og byrjað var á nýju 500 ha skógræktarsvæði í Skarfanesi í Landsveit árið 2015. Einnig er lokið landgræðsluverkefni á um 130 ha svæði í Bolholti í Rangarþingi ytra, en áfram er unnið á um 650 ha svæðum við Kot og Steinkross á Rangárvöllum. Landgræðsluverkefni á um 300 ha svæði er auk þess að hefjast á Þeistareykjum á Norðausturlandi.

Gróðursetning á vegum Landsvirkjunar var einnig unnin í samstarfsverkefninu Margar hendur vinna létt verk en þar býður fyrirtækið fram vinnuframlag sumarvinnuhópa ungs fólks til ýmissa verkefna. Rúmlega 55 þúsund plöntur voru gróðursettar á árinu á vegum verkefnisins en sú kolefnisbinding er ekki hluti af kolefnisbókhaldi Landsvirkjunar þar sem verkefnin eru ekki unnin fyrir Landsvirkjun.