Segment

Þjóðir heims eru sammála um að aðgerðir til að sporna gegn hlýnun jarðar séu eitt af brýnustu verkefnum samtímans.

Segment

Stærsti viðburður ársins í umhverfismálum á heimsvísu átti sér stað á loftslagsráðstefnunni í París, COP21, í lok desember 2015. Þar sameinuðust 195 þjóðir um aðgerðir til að bregðast við þeim loftslagsbreytingum sem orsakað hafa hlýnun jarðar. Markmiðið er að halda hlýnun jarðar vel innan 2°C og kappkosta að hún verði ekki meiri en 1,5°C ef mögulegt er.

Section #
Segment

Caring for Climate

Fyrir ráðstefnuna í París skrifaði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undir yfirlýsinguna Caring for Climate. Yfirlýsingin kveður á um að loftslagsbreytingar krefjist umsvifalausra og viðamikilla aðgerða stjórnvalda, viðskiptaheimsins og almennra borgara, ef koma á í veg fyrir að velmegun, sjálfbær þróun og öryggi í heiminum hljóti skaða af. Þá skuldbinda fyrirtæki sig m.a. til að grípa til aðgerða til að bæta orkunýtni og draga úr kolefnisspori á vörum, þjónustu og ferlum, setja sér markmið í þeim efnum og upplýsa árlega hvernig til tekst.

Segment

Í yfirlýsingu Landsvirkjunar um Caring for Climate er eitt af stefnumiðum fyrirtækisins að vera kolefnishlutlaust fyrirtæki og ná því markmiði eigi síðar en árið 2030.

Segment

Í samræmi við það markmið hefur verið unnið markvisst að áætlun um mögulegan samdrátt í losun fyrirtækisins og kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi. Loftslagsbreytingum fylgir áhætta fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og í öllum geirum atvinnulífs í heiminum. Þeim fylgir hins vegar líka áskorun til að þróa umhverfisvæna tækni til að sporna gegn breytingunum og bregðast við afleiðingunum. Þar skipar þróun tækni og nýting endurnýjanlegra orkugjafa stóran sess auk áherslu á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og aðstoða samfélagið við að laga sig að þeim loftslagsbreytingum sem þegar eru óumflýjanlegar.

Section #MarkmidLandsvirkjunar
Segment

Markmið Landsvirkjunar

Landsvirkjun hefur haldið grænt bókhald frá árinu 2006 þar sem haldið er utan um og upplýst um kolefnislosun fyrirtækisins. Í kjölfar undirritunar Caring for Climate skráði Landsvirkjun markmið sín í þessum efnum hjá NAZCA (Non-State Actor Zone for Climate Action), en það er alþjóðlegur vettvangur þar sem fyrirtækjum, borgum, svæðum, félagasamtökum og fjárfestum gefst tækifæri til að skrásetja markmið sín í baráttunni gegn loftslagsáhrifum. NAZCA-markmið Landsvirkjunar eru:

  • Að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki eigi síðar en árið 2030.
  • Að fjárfesta í endurnýjanlegri orkuvinnslu, jarðvarma, vatnsorku og vindorku.
  • Að sjá til þess að fjórðungur bílaflota fyrirtækisins verði knúinn með rafmagni árið 2020.
  • Að grípa til ýmissa aðgerða til að draga úr loftslagsáhrifum, m.a. að eiga frumkvæði að átaksverkefni á landsvísu um orkusparnað.