Segment

Kolefnisspor er mælikvarði sem notaður er til þess sýna áhrif athafna mannsins á loftslagsbreytingar. Mælikvarðinn vísar til þess magns gróðurhúsalofttegunda sem við losum beint eða óbeint í okkar daglega lífi.

Section #
Segment

Kolefnisspor Landsvirkjunar er skilgreint sem árleg losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi fyrirtækisins að frádreginni áætlaðri kolefnisbindingu og kolefnisjöfnun. Heildarlosun frá starfsemi fyritækisins á árinu 2015 var tæplega 52 þúsund tonn og hefur losunin dregist saman um 1% milli ára.

Í rúma fjóra áratugi hefur fyrirtækið staðið fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt í nágrenni aflstöðva sinna. Frá árinu 2011 hefur fyrirtækið jafnframt unnið að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi á skilgreindum svæðum í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og Skógrækt ríkisins. Árleg kolefnisbinding á vegum Landsvirkjunar er áætluð um 22.000 tonn CO2-ígilda.

Segment
Segment

Þá hefur Landsvirkjun frá árinu 2013 kolefnisjafnað starfsemi sína í samstarfi við Kolvið vegna brennslu fyrirtækisins á jarðefnaeldsneyti, flugferða starfsmanna, förgunar úrgangs og vegna losunar á SF6 frá rafbúnaði. Árið 2015 nam þessi losun 1.061 tonni CO2-ígilda. Sú losun hefur verið jöfnuð með bindingu kolefnis í skógarvistkerfum landsins.

Kolefnisspor Landsvirkjunar árið 2015 var 28.886 tonn CO2-ígilda sem jafngildir um 1,9 tonnum CO2-ígilda fyrir hverja unna GWst árið 2015. Þetta er nokkuð lægra en árið áður en þá jafngilti kolefnissporið 2,1 tonni CO2-ígilda fyrir hverja unna GWst. Heildursamdráttur var í losun frá fyrirtækinu á árinu sem meðal annars kemur til vegna bættrar orkunýtingar en losun á hverja unna GWst í jarðvarmavirkjunum lækkaði um 11% á milli ára.

Section #Upprunilosunargrodurhusalofttegunda
Segment

Uppruni losunar gróðurhúsalofttegunda

Losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Landsvirkjunar má að stærstum hluta rekja til orkuvinnslu með jarðvarma (68%) sem og losunar frá uppistöðulónum vatnsaflsvirkjana (29%). Önnur losun er vegna brennslu eldsneytis, urðunar úrgangs og losunar á SF6-gasi frá rafbúnaði (<3%). 

Nokkuð mikill munur er á milli orkuvinnslu með jarðvarma og vatnsafli með tilliti til gróðurhúsaáhrifa. Kolefnisspor fyrir hverja unna GWst með jarðvarma árið 2015 var 65,2 tonn CO2-ígilda/GWst en kolefnisspor á hverja unna GWst með vatnsafl er -0,445 tonn CO2-ígilda/GWst þar sem unnið er að kolefnisbindingu umfram þá losun sem verður við orkuvinnslu með vatnsafli.

Segment

Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu á háhitasvæðum er jarðhitavökvi tekinn upp um borholur úr jarðhitageymi á um 2.000 metra dýpi. Jarðhitavökvinn er blanda af vatnsgufu, vatni og ýmsum gastegundum. Jarðhitagas er að stærstum hluta koltvísýringur, oft í kringum 80–95% af massahlutfalli gass, þá brennisteinsvetni (H2S) sem getur verið frá 5–20%, en aðrar gastegundir, þar á meðal metan (CH4), eru í umtalsvert minna magni (<1%). Álitamál er hvort líta beri á útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum sem losun af mannavöldum eða náttúrulegt útstreymi frá svæðinu. Nokkuð breytilegt er milli landa hvort þetta útstreymi er tekið með í loftslagsbókhaldi vegna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna en Ísland er eitt þeirra landa þar sem þetta útstreymi er hluti af loftslagsbókhaldinu. Nánar má lesa um losun gróðurhúsalofttegunda frá jarðvarmavirkjunum í grænu bókhaldi (pdf).

Segment

Hugmyndalíkan fyrir uppruna og streymi koltvísýrings frá eldvirkum háhitasvæðum

Segment

Við myndun uppistöðulóna fer gróður og jarðvegur undir vatn. Við niðurbrot (rotnun) lífrænna efna myndast gróðurhúsalofttegundirnar koltvísýringur (CO2), metan (CH4) og glaðloft (N2O). Losun gróðurhúsalofttegunda frá lónum getur verið mjög breytileg en sá þáttur sem vegur hvað þyngst er heildarmagn þess gróðurs og lífrænna efna sem fer undir vatn í hverju tilviki. Frá árinu 2003 hefur Landsvirkjun látið rannsaka og meta losun gróðurhúsalofttegunda frá lónum fyrirtækisins. Þessar rannsóknir eru enn í gangi, m.a. vegna tilkomu Sporðöldulóns við Búðarhálsvirkjun árið 2013, en þar var unnið að nýjum rannsóknum sem enn er ólokið. Nánast engin losun koltvísýrings á sér stað þegar lónin eru ísilögð. Þá á sér hins vegar stað óveruleg losun metans og er ekki gerð grein fyrir þeirri losun sérstaklega heldur er hún reiknuð inn í heildarlosun frá lónunum. Nánari upplýsingar um losun frá lónum Landsvirkjunar árið 2015 má sjá grænu bókhaldi (pdf).

Segment

Helstu ferli gróðurhúsalofttegunda sem verða þegar land fer undir vatn

Section #VistferilsgreiningvindmyllaaHafinu
Segment

Vistferilsgreining vindmylla á Hafinu

Við orkuvinnslu er vistferilsgreiningin notuð til að meta umhverfisáhrif orkuvinnslunnar yfir allan vistferilin eða „lífsskeið“ virkjunarinnar, allt frá öflun hráefna vegna bygginga og viðhalds, sjálfa orkuvinnsluna og förgun efna og úrgangs yfir áætlaðan endingartíma mannvirkja. Markmið vistferilgreiningar er að sýna fram á hvar í ferlinu mestu umhverfisáhrifin verða og hvernig megi haga hönnun og rekstri orkuvinnslunnar þannig að þau séu lágmörkuð. Þannig er t.d. gerð grein fyrir skiptingu heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda milli byggingarframkvæmda og sjálfrar orkuvinnslunnar fyrir hverja unna 1 kWst. Orkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum veldur yfirleitt mun minni umhverfisáhrifum en orkuvinnsla úr jarðefnaeldsneyti á borð við olíu og kol. Kröfur til fyrirtækja sem vinna orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum um að draga úr umhverfisáhrifum eru þó engu minni.

Segment

Vistferilsgreining (Life Cycle Assessment, LCA) er aðferðafræði sem er notuð til að meta staðbundin og hnattræn umhverfisáhrif vöru, framleiðsluferils eða þjónustu frá hönnun til förgunar.

Segment

Á árinu var unnin vistferilsgreining var framkvæmd til að meta umhverfisáhrif tveggja rannsóknarvindmylla Landsvirkjunar á Hafinu fyrir ofan Búrfell. Niðurstöður sýndu meðal annars að öflun hráefna til framleiðslu vindmyllanna og uppsetning þeirra eru þeir þættir sem valda mestum umhverfisáhrifum í starfseminni. Kolefnisspor vindmyllu er 5,3 g CO2-ígildi/kWst miðað við 25 ára starfstíma og 43% nýtni. Greiningin sýndi að töluverður ávinningur er við endurvinnslu málma sem falla til þegar taka á vindmyllu úr rekstri. Endurvinnslan getur lækkað brúttó kolefnisspor um að minnsta kosti 11% miðað við núverandi forsendur um endurvinnslu. Umhverfisáhrif vindmyllunnar á hverja framleidda kWst ráðast verulega af afköstum sem ráðast meðal annars af líftíma vindmyllu, uppsettu afli og nýtni. Nýtni vindmylla á Hafinu er meiri en almennt gerist á öðrum landsvæðum og er samanburður við nýtingu vindorku og annarra orkugjafa erlendis jákvæður með tilliti til kolefnisspors og orkuarðsemi.

Segment