Segment

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar sem vinnur rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum – vatni, jarðvarma og vindi.

Segment

Raforkuvinnsla fyrirtækisins árið 2015 var 13.709 GWst eða um 73% allrar raforkuvinnslu á Íslandi. Hlutfallsleg skipting orkuvinnslunnar var um 96% vatnsorka, 4% jarðvarmaorka og 0,05% vindorka. Rík áhersla er lögð á að nýta orkuauðlindirnar með sjálfbærum hætti og að stunda orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag.

Section #Vatnsfordinn
Segment

Vatnsforðinn

Landsvirkjun rekur 14 vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið. Orkuvinnsla felst í að safna leysingavatni á vorin og jökulbráð sumarsins í uppistöðulón sem síðan er miðlað jafnt og þétt yfir árið til aflstöðvanna til raforkuvinnslu. Orkuvinnslukerfið á Íslandi er lokað kerfi án tengingar við önnur raforkukerfi og því er mikilvægt að nýta vatnsforðann í lónunum sem best svo unnt sé að tryggja afhendingu raforku samkvæmt orkusölusamningum.

Segment

Raforkuvinnsla vatnsaflsvirkjana grundvallast á hringrás vatnsins og er því eðli málsins samkvæmt háð veðurfari hverju sinni.

Segment

Við vatnsmiðlunina er leitast við, í samráði við sérfræðinga og heimamenn á vinnslusvæðum, að draga úr sveiflum og hröðum vatnshæðarbreytingum neðan virkjana. Vatnsstýring allra vatnsaflsstöðva Landsvirkjunar er skilgreind í verklagsreglum um takmarkanir á rennsli. Einnig eru settar tímabundnar takmarkanir á rennsli, til dæmis vegna laxveiða og rennslis í fossum. 

Í ársskýrslu Landsvirkjunar má finna ítarlegar upplýsingar um síðasta vatnsár. Jafnframt er skýrt frá áætluðum miðlunarforða ársins 2015 ásamt raungildum ársins 2015 og þannig hægt að sjá hversu vel áætlanir í vatnsbúskap fyrirtækisins stóðust.

Nánar um vatnsárið

Segment

Section #Jardhitafordinn
Segment

Jarðhitaforðinn

Markmið fyrirtækisins er að nýta jarðhitaauðlindina á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Landsvirkjun starfrækir tvær jarðvarmastöðvar á Mývatnssvæðinu, Kröflustöð og Bjarnarflagsstöð, og í maí 2015 hófust framkvæmdir við virkjun jarðvarma á Þeistareykjum. Stundaðar eru umfangsmiklar rannsóknir á nýtingu jarðhita á svæðinu, bæði í tengslum við núverandi rekstur og vegna mögulegrar framtíðarnýtingar á öðrum svæðum.

Segment

Landsvirkjun hefur það að leiðarljósi að tryggja örugga og sjálfbæra jarðvarmavinnslu og draga úr umhverfisáhrifum sem henni fylgir.

Segment

Við nýtingu jarðhitaauðlindarinnar er jarðhitavökvi sem samanstendur af gufu, vatni og gasi tekinn upp úr jarðhitageymi á um 2.000 metra dýpi. Orkan er unnin úr gufunni. Stærsta hluta vatnsins er dælt aftur niður í jarðhitageyminn (djúplosun) eða því veitt í yfirborðsvatn meðan gasið fer út í andrúmsloftið. Á árinu 2015 voru 5.099 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 497 GWst af raforku á Mývatnssvæðinu. Magn gufu við raforkuvinnslu hefur dregist nokkuð saman á árunum 2011–2015 og er afkastarýrnun í holum helsta ástæða samdráttarins. Við vinnslu á árinu féllu til 5.471 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni og hefur magn vatns í jarðhitavökvanum verið nokkuð stöðugt undanfarin fimm ár. Þá var 4.300 þúsund tonnum af skiljuvatni veitt aftur niður í jarðhitageyminn.

Segment
Segment

Magn gufu sem nýtt var til raforkuvinnslu á árunum 2011–2015 ásamt magni þétti- og skiljuvatns sem féll til við orkuvinnsluna. Djúplosunin sýnir magn skiljuvatns sem á sama tímabili var veitt aftur niður í jarðhitageyminn.

Section #Eldsneyti
Segment

Eldsneyti

Eitt af markmiðum Landsvirkjunar er að verða kolefnishlutlaust fyrirtæki fyrir árið 2030. Því markmiði ætlar fyrirtækið m.a. að ná með því að vinna kerfisbundið að því að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti í starfsemi sinni.

Í starfsemi fyrirtækisins er jarðefnaeldsneyti notað á bifreiðar, vélar og ýmis tæki. Heildarinnkaup jarðefnaeldsneytis (dísilolíu og bensíns) á árinu 2015 var 265 þúsund lítrar sem er um 4% aukning frá fyrra ári. Stærsti hluti þess er dísilolía eða um 95% en bensín var um 5%. Þá voru rúmlega 13 þúsund lítrar af lífdísil notuð til að knýja bifreiðar á Þjórsársvæðinu.

Segment
Segment

Ávinningur þess að notast við lífdísil er meðal annars sá að við brennslu hans losnar 60% minna magn gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið heldur en við brennslu hefðbundinnar dísilolíu.

Segment

Þrátt fyrir aukningu á innkaupum á jarðefnaeldsneyti á árinu 2015 tókst engu að síður að draga úr notkun dísilolíu á farartæki, aðallega vegna notkunar lífdísils í stað hefðbundinnar dísilolíu. Heildarnotkun dísilolíu á farartæki dróst saman um 11% frá fyrra ári en veruleg aukning var hins vegar í innkaupum á dísilolíu á varaaflsvélar fyrirtækisins. Það kemur til vegna uppsetningar nýrra varaaflsvéla, m.a. á Þjórsársvæðinu vegna reksturs búnaðar til flóðvarna við náttúruhamfarir, svo sem eldgos í Bárðarbungu. Á undanförnum árum hefur dregið verulega úr bensínnotkun í starfsemi fyrirtækisins.

Section #
Segment

Útgefið efni

Rannsóknir á ástandi þeirra auðlinda sem Landsvirkjun nýtir til raforkuvinnslu eru framkvæmdar og kynntar ár hvert. Með því að vakta og þekkja ástand auðlindarinnar sést hvaða áhrif orkuvinnslan hefur á umhverfið og hvernig best er að haga vinnslunni svo hún fari fram á sem sjálfbærastan hátt. Rannsóknirnar eru unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga. Hér er að finna yfirlit yfir helstu rannsóknir í tengslum við auðlindir unnar á árinu 2015.

Section #