Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar og vinnur rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum – vatni, jarðvarma og vindi.
Starfsemi Landsvirkjunar veldur í eðli sínu raski á umhverfinu þar sem bygging mannvirkja og mannlegt inngrip í náttúruna geta haft áhrif á lífríki og samfélag. Þess vegna leggur Landsvirkjun mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti og hefur að leiðarljósi að stunda orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag.
Umhverfisstefna fyrirtækisins var endurskoðuð árið 2015. Til að uppfylla stefnu og markmið fyrirtækisins í umhverfismálum voru skilgreind fimm stefnumið og fjöldi leiða að settu marki. Tölulegt markmið fyrir stefnu um kolefnishlutleysi var einnig skilgreint. Markmið um starfsemi án umhverfisatvika er nú þegar í gildi, sem er eðli sínu samkvæmt núllmarkmið.
Umhverfisstefna Landsvirkjunar
Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Landsvirkjun leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim.
Stefnumið
auðlinda
- Hönnun nýrra virkjanakosta, breytingar á virkjunum og rekstur þeirra taki ávallt mið af sem bestri nýtingu auðlindanna.
- Styðjast við alþjóðalega matslykilinn HSAP við þróun, hönnun og rekstur orkuvinnslunnar.
- Nýta hugmyndafræði vistferilgreininga (LCA) til að bæta nýtingu auðlinda og draga úr umhverfisáhrifum.
- Stunda vistvæn innkaup og gera kröfur til birgja og þjónustuaðila í umhverfismálum.
- Flokka, endurnýta og/eða endurvinna úrgang.
starfsemi
- Vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.
- Stuðla að orkuskiptum í samgöngum og fylgja samgöngustefnu fyrirtækisins.
náttúru og ásýnd
- Stuðla að viðhaldi náttúrlegs fjölbreytileika og lágmarka rask.
- Stuðla að endurheimt vistkerfa og fylgja verklagi fyrirtækisins við vistheimt.
- Fylgja stefnu fyrirtækisins um útlit mannvirkja og landmótun.
hagsmunaaðila
- Vinna samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, m.a. með virku samtali og þátttöku í samstarfsverkefnum með hagsmunaaðilum.
- Stuðla að opinni og málefnanlegri umræðu og gera grein fyrir árangri fyrirtækisins í umhverfismálum.
umhverfisatvika
- Starfa eftir vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001.
- Skilgreina umhverfisþætti starfseminnar, stýra þeim og vakta árangur.
- Tryggja að öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt og setja strangari kröfur eftir því sem við á.
- Vinna markvisst að forvörnum og umbótum, m.a. með rannsóknum, markmiðasetningu og með skráningum og úrvinnslu ábendinga.
- Leggja áherslu á að starfsfólk fyrirtækisins og aðrir sem vinna fyrir það hafi yfir að ráða hæfni og þekkingu til að framfylgja umhverfisstefnu fyrirtækisins.
Umhverfisþættir
Landsvirkjun leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og leitast við að draga úr þeim. Til þess að hafa yfirsýn yfir möguleg umhverfisáhrif hefur fyrirtækið skilgreint yfir tuttugu mikilvæga umhverfisþætti til stýringar og vöktunar sem vaktaðir eru reglulega. Verklag við stýringu umhverfisþátta og vöktun er skýrt skilgreint fyrir alla starfsemina og er umhverfisþáttunum skipt í þrjá flokka; auðlindir, losun og náttúra og ásýnd.
Umhverfisstjórnun samkvæmt ISO 14001
Umhverfisstjórnunarkerfi Landsvirkjunar er vottað samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 14001. Fyrirtæki með ISO 14001 vottun hefur farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á umhverfisáhrifum starfsemi sinnar. Landsvirkjun setur sér markmið um hvernig megi draga úr mikilvægum umhverfisáhrifum starfseminnar en í staðlinum eru kröfur um að markmiðum sé náð og að sífelldar úrbætur eigi sér stað.