Segment

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar og vinnur rafmagn með endurnýjanlegum orkugjöfum – vatni, jarðvarma og vindi.

Segment

Starfsemi Landsvirkjunar veldur í eðli sínu raski á umhverfinu þar sem bygging mannvirkja og mannlegt inngrip í náttúruna geta haft áhrif á lífríki og samfélag. Þess vegna leggur Landsvirkjun mikla áherslu á að nýta orkulindir með sjálfbærum hætti og hefur að leiðarljósi að stunda orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag.

Umhverfisstefna fyrirtækisins var endurskoðuð árið 2015. Til að uppfylla stefnu og markmið fyrirtækisins í umhverfismálum voru skilgreind fimm stefnumið og fjöldi leiða að settu marki. Tölulegt markmið fyrir stefnu um kolefnishlutleysi var einnig skilgreint. Markmið um starfsemi án umhverfisatvika er nú þegar í gildi, sem er eðli sínu samkvæmt núllmarkmið.

Section #UmhverfisstefnaLandsvirkjunar
Segment

Umhverfisstefna Landsvirkjunar

Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Landsvirkjun leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim.

Segment

Stefnumið

Betri nýting
auðlinda
  • Hönnun nýrra virkjanakosta, breytingar á virkjunum og rekstur þeirra taki ávallt mið af sem bestri nýtingu auðlindanna.
  • Styðjast við alþjóðalega matslykilinn HSAP við þróun, hönnun og rekstur orkuvinnslunnar.
  • Nýta hugmyndafræði vistferilgreininga (LCA) til að bæta nýtingu auðlinda og draga úr umhverfisáhrifum.
  • Stunda vistvæn innkaup og gera kröfur til birgja og þjónustuaðila í umhverfismálum.
  • Flokka, endurnýta og/eða endurvinna úrgang.
Kolefnahlutlaus
starfsemi
  • Vinna markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og vinna jafnframt að kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.
  • Stuðla að orkuskiptum í samgöngum og fylgja samgöngustefnu fyrirtækisins.
Starfsemi í sátt við
náttúru og ásýnd
  • Stuðla að viðhaldi náttúrlegs fjölbreytileika og lágmarka rask.
  • Stuðla að endurheimt vistkerfa og fylgja verklagi fyrirtækisins við vistheimt.
  • Fylgja stefnu fyrirtækisins um útlit mannvirkja og landmótun.
Samtal við
hagsmunaaðila
  • Vinna samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, m.a. með virku samtali og þátttöku í samstarfsverkefnum með hagsmunaaðilum.
  • Stuðla að opinni og málefnanlegri umræðu og gera grein fyrir árangri fyrirtækisins í umhverfismálum.
Starfsemi án
umhverfisatvika
  • Starfa eftir vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi skv. ISO 14001.
  • Skilgreina umhverfisþætti starfseminnar, stýra þeim og vakta árangur.
  • Tryggja að öllum lagalegum kröfum á sviði umhverfismála sé fullnægt og setja strangari kröfur eftir því sem við á.
  • Vinna markvisst að forvörnum og umbótum, m.a. með rannsóknum, markmiðasetningu og með skráningum og úrvinnslu ábendinga.
  • Leggja áherslu á að starfsfólk fyrirtækisins og aðrir sem vinna fyrir það hafi yfir að ráða hæfni og þekkingu til að framfylgja umhverfisstefnu fyrirtækisins.
Section #Umhverfisthaettir
Segment

Umhverfisþættir

Landsvirkjun leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og leitast við að draga úr þeim. Til þess að hafa yfirsýn yfir möguleg umhverfisáhrif hefur fyrirtækið skilgreint yfir tuttugu mikilvæga umhverfisþætti til stýringar og vöktunar sem vaktaðir eru reglulega. Verklag við stýringu umhverfisþátta og vöktun er skýrt skilgreint fyrir alla starfsemina og er umhverfisþáttunum skipt í þrjá flokka; auðlindir, losun og náttúra og ásýnd.

Segment
1 2 3 4 5 6 7 8 9 10 11 12 13 14 15 16 17 18 19 20 21
  • 1 Nýting vatnsforðans

    Landsvirkjun leitast við að hámarka nýtingu vatns sem notað er til raforkuvinnslu. Vatnið sem nýtt er á að stærstum hluta upptök sín í jöklum. Umfangsmiklar jöklarannsóknir eru því stundaðar, þar sem meðal annars er fylgst með langtímabreytingum og afrennsli þeirra jökla sem eru mikilvægir fyrir vatnsbúskap fyrirtækisins.
  • 2 Vatnsstýring

    Stjórnun raforkuvinnslu felst í að stýra innrennsli vatns úr lónum inn í aflstöðvar. Með rennslisstýringu er einnig hægt að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur í rennsli árfarvega og hraðar breytingar á vatnshæð lóna, þar sem slíkar sveiflur geta haft neikvæð áhrif á jarðveg, lífríki og samfélag.
  • 3 Nýting grunnvatns, kalt vatn

    Grunnvatn er nýtt bæði sem neysluvatn og til kælingar á búnaði við vinnslu jarðvarma. Grunnvatn er ein af mikilvægustu auðlindum landsins og er því vaktað með það fyrir augum að tryggja sjálfbæra nýtingu vatnsauðlindarinnar.
  • 4 Nýting jarðhitaforðans

    Við nýtingu jarðhita til raforkuvinnslu er jarðhitavökvi tekinn upp úr jarðhitageymi. Vökvinn er blanda af gufu, vatni og gasi. Gufan er nýtt til raforkuvinnslu en vatninu er ýmist fargað á yfirborði eða veitt aftur niður í geyminn. Upptaka vökvans getur haft í för með sér ýmis áhrif til dæmis á þrýsting í jarðhitageyminum, yfirborðsvirkni jarðhita og skjálftavirkni.
  • 5 Hættumerkt efni

    Hættumerkt efni eru efnablöndur eða efni sem geta valdið tjóni á umhverfi eða heilsu manna og dýra. Slík efni eru til dæmis notuð á verkstæðum, til þrifa og við ýmsar rannsóknir og framkvæmdir. Landsvirkjun heldur skrá yfir notkun hættumerktra efna og leitast við að lágmarka notkun þeirra.
  • 6 Innkaup

    Með vali á umhverfisvottaðri vöru og þjónustu er hægt að draga umtalsvert úr umhverfisáhrifum af eigin starfsemi. Fyrirtækið leitast við að draga úr umhverfisáhrifum af innkaupum með því að velja umhverfisvottaðar vörur og þjónustu.
  • 7 Eldsneyti

    Brennsla jarðefnaeldsneytis veldur losun gróðurhúsalofttegunda (GHL) og leggur Landsvirkjun áherslu á að lágmarka þá losun með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Þá er leitast við að tryggja að meðhöldun eldsneytis valdi ekki tjóni á lífríki og náttúru.
  • 8 Rafmagn- og heitavatnsnotkun

    Stærsti hluti rafmagnsnotkunar fyrirtækisins er eigin framleiðsla frá endurnýjanlegum orkuauðlindum en fyrirtækið kaupir einnig rafmagn og heitt vatn fyrir aðra starfsemi, svo sem skrifstofu- og geymsluhúsnæði. Leitast er við að draga úr óþarfa notkun.
  • 9 Gas frá jarðgufuvirkjunum

    Við nýtingu jarðhita er jarðhitavökvi tekinn upp úr jarðhitageymi. Vökvinn er blanda af vatni, gufu og gasi. Gasið er aðallega koltvísýringur, brennisteinsvetni og vetni. Landsvirkjun skráir magn og samsetningu gaslosunar frá orkuvinnslunni og upplýsir bæði um losun gróðurhúsalofttegunda og styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti af hennar völdum.
  • 10 Losun frá lónum

    Við myndun uppistöðulóna fer land undir vatn og við niðurbrot lífrænna efna í gróðri og jarðvegi myndast gróðurhúsalofttegundir (GHL). Losun GHL er mjög breytileg milli lóna og ræðst aðallega af magni þess gróðurs og lífræns efnis sem fer undir vatn. Fyrirtækið hefur látið rannsaka losun GHL frá lónum fyrirtækisins og upplýsir um þá losun.
  • 11 Losun SF6 frá rafbúnaði

    Brennisteinshexaflúoríð (SF6) er notað sem einangrunarmiðill á rafbúnað. Lofttegundin er öflugasta gróðurhúsalofttegund sem þekkt er. Landsvirkjun vaktar mögulega leka á SF6 frá rafbúnaði auk þess sem fyrirtækið skráir og upplýsir um losun.
  • 12 Þétti- og skiljuvatn

    Við orkuvinnslu með jarðhita er jarðhitavökvi, sem er blanda af gufu, vatni og gasi, tekinn upp úr jarðhitageymi. Vatninu sem inniheldur ýmis efni er fargað út í yfirborðvatn eða veitt aftur niður í geyminn. Efnastyrkur vatnsins er breytilegur milli staða og við yfirborðslosun geta efnin haft áhrif á lífríki. Því leitast fyrirtækið við að veita vatninu aftur niður í geyminn og vaktar möguleg áhrif þess á vatn og lífríki.
  • 13 Frárennsli

    Frárennsli er allt fráveituvatn sem inniheldur svifagnir. Með settönkum, olíuskiljum og rotþróm er hægt að draga úr umhverfisáhrifum frárennslis. Hjá Landsvirkjun er virkni þessa búnaðar vöktuð og tankar og þrær tæmdar reglulega af viðurkenndum förgunaraðilum.
  • 14 Úrgangur

    Við urðun á úrgangi brotnar lífrænn hluti hans niður og myndar metangas sem veldur gróðurhúsaáhrifum. Markmið Landsvirkjunar er að auka endurvinnslu og endurnýtingu og draga þannig úr magni úrgangs sem fer til urðunar. Sköpuð er aðstaða til flokkunar og geymslu á úrgangi á öllum starfsstöðvum og magn úrgangs skráð.
  • 15 Spilliefni

    Afgangur og umbúðir hættumerktra efna sem á að farga flokkast sem spilliefni og um meðferð þeirra gilda sérstök lög. Spilliefni geta verið eldfim, ertandi, ætandi og hættuleg heilsu og umhverfi. Öllum spilliefnum á starfsstöðvum Landsvirkjunar er safnað í sérstök ílát, magn þeirra skráð og skilað til viðurkenndra móttökuaðila.
  • 16 Hávaði

    Hávaði vegna starfsemi Landsvirkjunar stafar helst frá blæstri í borholum við jarðvarmavinnslu, frá vélum og búnaði og frá vindmyllum. Hávaði getur haft áhrif á upplifun í náttúru og stöðugt áreiti vegna hávaða getur einnig verið heilsuspillandi. Fyrirtækið vaktar hljóðvist og til að draga úr hávaða eru m.a. hljóðdeyfar á öllum borholum Landsvirkjunar.
  • 17 Landgræðsla og skógrækt

    Landsvirkjun stendur fyrir umfangsmikilli landgræðslu og skógrækt. Tilgangur landgræðslunnar er að endurheimta landgæði og draga úr raski á gróðurlendum. Með aukinni vitund um loftslagsbreytingar er kolefnisbinding með landgræðslu og skógrækt orðin mikilvæg aðgerð til að vega á móti loftslagsáhrifum.
  • 18 Áhrif á lífríki

    Starfsemi Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilega rask, m.a. vegna vatnaflutninga og tilkomu nýrra mannvirkja. Umfangsmikil vöktun og rannsóknir á náttúru og lífríki eru stundaðar á starfssvæðum fyrirtækisins í þeim tilgangi að meta áhrif starfseminnar og leita leiða til að draga úr þeim. Lífríkisvöktun fyrirtækisins snýr að hreindýrum, vatna- og fuglalífi og eru rannsóknir unnar í samstarfi við háskóla, rannsóknarstofnanir og sjálfstæða sérfræðinga.
  • 19 Rof og setmyndun

    Breytingar á vatnsrennsli í ám og vatnshæð í lónum, auk álags frá vindi, vatni og öldum geta leitt til rofs úr farvegum og bökkum lóna. Þá getur framburður jökuláa leitt til setmyndunar í lónum. Landsvirkjun leitast við að tryggja sem jafnast rennsli í árfarvegum til að lágmarka rof. Reglubundin vöktun fer fram á rofi og setmyndun og gripið er til aðgerða ef þörf er á.
  • 20 Jarðrask

    Allt jarðrask getur haft áhrif á lífríki og náttúru. Jarðrask getur meðal annars orsakast af efnistöku, gerð lóna, stíflna og veituleiða. Fyrirtækið leggur áherslu á að halda jarðraski í lágmarki og að framkvæmdum loknum eru svæðin færð til fyrra horfs eins og hægt er.
  • 21 Sjónræn áhrif og landmótun

    Öllum framkvæmdum Landsvirkjunar fylgir óhjákvæmilegt rask á umhverfi og við stærri framkvæmdir geta sjónræn áhrif orðið umtalsverð. Áhrifin eru mismunandi og ráðast meðal annars af landslagseinkennum. Við hönnun mannvirkja leggur fyrirtækið áherslu á að skapa heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrulegs landslags.
Segment

Umhverfisstjórnun samkvæmt ISO 14001

Umhverfisstjórnunarkerfi Landsvirkjunar er vottað samkvæmt alþjóðlega staðlinum ISO 14001. Fyrirtæki með ISO 14001 vottun hefur farið í gegnum ferli sem felur í sér stefnumótun á sviði umhverfismála og ítarlega skoðun á umhverfisáhrifum starfsemi sinnar. Landsvirkjun setur sér markmið um hvernig megi draga úr mikilvægum umhverfisáhrifum starfseminnar en í staðlinum eru kröfur um að markmiðum sé náð og að sífelldar úrbætur eigi sér stað.