Section #SectionOne
Segment

Á síðasta ári voru 50 ár frá stofnun Landsvirkjunar. Allt frá upphafi höfum við lagt áherslu á að nýta orkulindir þjóðarinnar með sjálfbærum hætti.

Við höfum að leiðarljósi að stunda orkuvinnslu í sátt við umhverfi og samfélag og vinnum samkvæmt hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Það gerum við meðal annars með virku samtali og þátttöku í samstarfsverkefnum með hagsmunaðilum.

Enda þótt fyrirtækið vinni rafmagn eingöngu með endurnýjanlegum orkugjöfum veldur starfsemin óhjákvæmilega umhverfisraski og áhrifum á lífríki. Okkur ber því að stíga varlega til jarðar með hagkvæmni, sátt og sjálfbærni að leiðarljósi. Við leggjum áherslu á að stuðla að opinni og málefnalegri umræðu og gera grein fyrir áskorunum og árangri fyrirtækisins í umhverfismálum.

Á árinu 2015 var umhverfisstefna fyrirtækisins endurskoðuð. Við leggjum nú áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfseminnar og leitumst við að draga úr þeim.

Við Íslendingar eigum miklar auðlindir en þeim fylgir líka mikil ábyrgð. Baráttan gegn loftslagsbreytingum er eitt stærsta hagsmunamál samtímans. Við erum hluti af heiminum og þurfum að sýna þá ábyrgð að skoða okkur sjálf í hnattrænu samhengi. Nýting okkar Íslendinga á endunýjanlegum orkugjöfum hefur verið eitt okkar helsta framlag í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

Landsvirkjun hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna, við að stuðla að sjálfbærri orkuvinnslu. Nú, þegar loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna vistkerfum heimsins, er það þannig á okkar ábyrgð að sýna fordæmi – draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda og miðla reynslu okkar og þekkingu af nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa.

Hörður Arnarson
forstjóri Landsvirkjunar